1. gr.

Félagið heitir Gagnaglímufélag Íslands, skammstafað GGFÍ.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:

  • Rækta samfélag gagnaglímukappa á Íslandi.
  • Efla samskipti gagnaglímukappa á Íslandi.
  • Efla tölvuöryggismenningu á Íslandi.
  • Halda utan um þáttöku Íslands í Netöryggiskeppni Evrópu (e. European Cyber Security Challenge)

Eingöngu er um félagasamtök að ræða og verður enginn atvinnurekstur hjá félaginu.

3. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að:

  • Halda reglulega viðburði tengda gagnaglímu.
  • Halda úti vefsíðu um starf félagsins og gagnaglímu almennt.
  • Sjá um samskiptavettvang gagnaglímukappa á Íslandi.
  • Halda forkeppni fyrir Netöryggiskeppni Evrópu ár hvert.
  • Sjá um val á liði fyrir Netöryggiskeppni Evrópu.

4. gr.

Allir sem hafa áhuga á tölvuöryggi eða gagnaglímu og hafa ekki gerst brottrækir úr félaginu geta skráð sig í félagið. Beiðni um inngöngu í félagið skal vera send til stjórnar félagsins, og skal innihalda fullt nafn, kennitölu og netfang umsækjanda. Umsækjandi gerist félagsmaður þegar stjórn hefur samþykkt umsóknina, félagsgjald yfirstandandi starfstímabils hefur verið greitt og skrifað hefur verið undir drengskaparheit félagsins.

5. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.

6. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. febrúar ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Skýrsla stjórnar lögð fram.
  • Reikningar lagðir fram til samþykktar.
  • Lagabreytingar.
  • Endurskoðun drengskaparheita félagsins.
  • Ákvörðun félagsgjalds.
  • Kosning stjórnar.
  • Önnur mál.

7.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 3 félagsmönnum, formanni og 2 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Einnig er heimilt að kjósa allt að 3 varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

8.gr.

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Í lok hvers starfstímabils eru félagar, sem ekki hafa borgað félagsgjald þess starfstímabils, skráðir úr félaginu.

9. gr.

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins.

10. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess, ef til staðar eru, til Keppnisforritunarfélags Íslands (kt: 450417-0760).

11. gr.

Stjórn ákveður val á liði fyrir Netöryggiskeppni Evrópu og þar með talið liðstjóra og varaliðstjóra. Valið skal byggt á frammistöðu í íslensku forkeppninni, Gagnaglímunni, ásamt þátttöku og iðkun við æfingar. Við valið er einnig horft til reglna Netöryggiskeppni Evrópu um skilyrði fyrir þátttöku.

12. gr.

Allir félagsmenn sem og allir sem koma að þátttöku Íslands í Netöryggiskeppni Evrópu skulu undirrita drengskaparheit félagsins. Í drengskaparheit skal koma fram að undirritaður muni ekki nýta þá þekkingu sem hann öðlast í starfi félagsins til ólöglegra eða meinfýsinna verka. Drengskaparheit er ritað af stjórn og skal endurskoðað á hverjum aðalfundi.

13. gr.

Stjórn ber að rannsaka öll tilkynnt brot á drengskaparheit. Komist stjórn félagsins samhljóma að þeirri niðurstöðu að undirritaður hafi brotið drengskaparheit, skal stjórn ákvarða refsingu. Refsingu skal ákvarða í samræmi við alvarleika brots og skal niðurstaðan vera samhljóma. Brot geta varðað brottrekstri úr félaginu eða keppnisliði Íslands í Netöryggiskeppni Evrópu. Stjórn mun ávallt gera viðeigandi yfirvöldum viðvart ef brot á drengskaparheit felur í sér lögbrot.